144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna seinustu spurningar ætla ég bara að ítreka að ég tala í sjálfu sér ekki í nafni Bændasamtakanna lengur og þau ráða gjörðum sínum í þeim efnum.

Þingmaðurinn spyr um áhyggjur af því að lækkanir skili sér ekki í vöruverði. Ég held að ég sé ekkert öðruvísi neytandi en aðrir, ég deili alveg sömu áhyggjum af því að það gangi fram. Við höfum hins vegar ýmis tæki til að lækkun skili sér til neytenda, þ.e. með virku verðlagsaðhaldi og með okkar eigin innkaupum og skilaboðum sem við sendum til þeirra sem leggja á vöruna. Áhyggjurnar eiga fullan rétt á sér. Ég tek t.d. eftir því að nú er búið að flytja inn, þ.e. í sumar, á mjög lágum gjöldum hakkefni í nautakjöt, landbúnaðarráðherra felldi niður gjöldin og var innflutningur óheftur en nautahakkið lækkaði ekki. Það hefur greinilega ekki að skilað sér, alla vega miðað við þá mynd sem ég hef af þessu. En vöruverð og hvernig það birtist okkur má fjalla um með margvíslegum hætti.

Þingmaðurinn spyr um rafmagnskostnað. Það er eins og ég sagði áðan, fjárlaganefnd á eftir að fara yfir hann. Það eru að koma ábendingar fram í þessari umræðu. Þetta er ábending sem við þurfum sannarlega að taka tillit til og taka inn í okkar umræðu um hvort við eigum að bregðast við. Ég tel að við eigum að bregðast við þessari ábendingu. En vegna orða þingmannsins hérna áðan um stöðugt hækkandi verðlag vil ég líka nefna að iðnaðarráðherra hefur flutt mál í þinginu og sú breyting hefur t.d. orðið á raforkukostnaði í dreifbýli að dreifikostnaðurinn hefur verið lækkaður þar með aðgerðum þessarar ríkisstjórnar. Það sjást þó merki um að við erum að takast á við þessa þætti.