144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:55]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö grundvallaratriði sem ég vil benda þingmanninum á sem svar við þessari spurningu sem ég þakka honum kærlega fyrir. Í fyrsta lagi: Sá er meginmunur á þessum tillögum um hækkun á lægra þrepi virðisaukaskattsstigs sem felur í sér hækkun á virðisaukaskatti á matvælum að það eru fleiri aðgerðir í gangi sem á endanum þýðir að þetta á ekki að hafa áhrif á kaupmátt. Það er grundvallarmál.

Við getum endalaust talað um hve dýrt eða ódýrt þetta eða hitt er. En alla þá umræðu, hvort sem við erum að tala um verð á gallabuxum, mjólk eða aðra vöruflokka, megum við aldrei slíta úr samhengi við það hvert launastigið er, hvert efnahagslegt stig þjóðarinnar er. Þó að kjúklingur sé ódýr úti í Portúgal þegar við förum þangað þá er launamaðurinn í Portúgal alveg jafn lengi að vinna fyrir kjúklingnum og launamaður á Íslandi. Það er þáttur í öllum samanburði á verðlagi sem við megum aldrei gleyma.

Við getum horft til annarra landa og borið verð saman með þessum hætti en megum aldrei gleyma þessum þætti, hvernig við höfum það. Það er í raun það sem skiptir máli. Ef við ætlum að bera verð á hlutum saman þá verðum við að meta það út frá því hve lengi við erum að vinna fyrir þeim. Kaupgjald er mismunandi, verðlag er mismunandi á milli landa.