144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast stuttlega við ræðu hv. þingmanns. Ég vil í fyrsta lagi, vegna athugasemda frá launþegahreyfingunni, vegna þeirra athugasemda sem þar koma fram, vekja athygli á einu.

Það sem kjarasamningarnir á síðasta ári, sem endanlega voru staðfestir á þessu ári, snerust fyrst og fremst um var að ná stöðugleika í efnahagsmálum, að ná niður verðbólgu, að kjarasamningarnir mundu síður leggja áherslu á nafnlaunahækkanir en meira á kaupmáttarvöxt. Þetta hefur allt tekist. Við erum með lága verðbólgu. Við erum með kaupmáttaraukningu í dag og það horfir til þess að hún haldi áfram á næsta ári. Heildaráhrif þessa frumvarps hér eru til þess að lækka verðlag og auka kaupmátt. Gjalda- og skattbreytingarnar sem við erum að kynna til sögunnar munu auka kaupmátt. Það eru skjólstæðingar launþegahreyfingarinnar sem munu njóta góðs af þessu.

Er ástæða til þess að hafa áhyggjur af tekjulægsta hópnum? Skoðum það.

Úttekt Hagstofunnar sýnir að þegar horft er á útgjöld heimilanna sé enginn munur, enginn raunverulegur munur, á því hvað tekjuhátt fólk og tekjulágt fólk ver sem hlutfall af útgjöldum í mat. Það er staðreynd. Við erum með skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem staðfestir það sama að virðisaukaskattskerfið er slæmt tekjujöfnunartæki. Þess vegna förum við aðrar leiðir til að koma til móts við þá.

Ég vil segja varðandi greiðsluþátttökuna: Það er ekkert annað á ferðinni varðandi greiðsluþátttöku sjúklinga en það að taka S-merktu lyfin — sem seld eru í apótekum, sömu lyf og eru S-merkt inni á spítölunum og verða þar áfram gjaldfrjáls, það er enginn (Forseti hringir.) að tala um að taka gjöld af sjúklingum inni á spítölum — inn í greiðsluþátttökukerfið þar sem verður ákveðið þak á ári.