144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann endaði ræðu sína á því að segja að þegar upp væri staðið væri nettóniðurstaðan varðandi hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og afnám vörugjalda á ákveðna vöruflokka sem skipti máli fyrir almenning. Mér finnst þetta svolítið líkjast því þegar menn hafa annan fótinn í köldu vatni og hinn fótinn í heitu vatni og að meðaltali hafi þeir það þokkalegt.

Telur hv. þingmaður að ekki þurfa að greina áður en ráðist er í svona afdrifaríkar hækkanir á matvælum og afnám vörugjalda hvernig þessar breytingar koma niður á mismunandi hópum? Telur hv. þingmaður að afnám vörugjalda nýtist þeim hópi að einhverju ráði þar sem matarverð er stærstur hluti tekna? Telur hann að þessi jöfnun innbyrðis, sem mikið er talað um og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talar um, gagnist þeim sem þyrftu á því að halda, eins og þessi skipting verður þegar upp er staðið? Telur hann að það þurfi ekki miklu betri greiningu á því ef menn vilja ekki að ákveðnir hópar í þjóðfélaginu beri miklu, miklu þyngri byrðar að þessum breytingum loknum en vilji er til? Ég trúi ekki að það sé virkilega vilji til þess að þeir tekjulægstu beri hlutfallslega miklu, miklu þyngri byrðar en þeir tekjuháu.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um að hlutfallslegur matarkostnaður sé álíka hjá hátekjufólki og lágtekjufólki (Forseti hringir.) þá getur það aldrei staðist að hátekjufólk komist yfir að éta allan þann mat sem þá þyrfti til.