144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um fjárlagafrumvarpið hér í dag. Hún hefur að verulegu leyti snúist um frumvarpið sjálft en ekki síður um tekjuöflunarfrumvörpin sem fá sína sérstöku umræðu við 2. umr. Ég vonast til þess að í nefndinni verði farið vandlega yfir öll þau sjónarmið sem hér hefur verið farið yfir. Til þess gefst nokkuð góður tími nú þegar frumvarpið kemur fram þetta snemma á hausti, þing fært fram til annars þriðjudags í september. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn en það eru ekki mörg dæmi þess að fjárlög og síðan tekjuöflunarfrumvörp komi saman. Fjárlög hafa komið fram áður í september en ekki með tekjuöflunarfrumvörpunum. Nú gefst því óvenju góður tími miðað við það sem áður hefur gilt til þess að fara vandlega ofan í öll þessi mál og það er í mínum huga framfaraskref.

Helsta málið sem rætt hefur verið um í dag snýr að tekjuöflunarfrumvörpunum, breytingum á virðisaukaskattskerfinu og vörugjöldum. Það er gott að því sé gefinn góður gaumur, það skiptir máli að ræða það í hörgul. Í mínum huga skipta nokkur atriði meginmáli varðandi þá umræðu. Í fyrsta lagi að ríkið er að gefa eftir tekjur með þessum breytingum þegar á heildina er litið. Það er grundvallaratriði. Í því felst sem sagt skattalækkun. Við getum svo rætt um það hvort henni sé dreift með réttum eða sanngjörnum hætti en það grundvallaratriði verður ekki skrumskælt.

Í öðru lagi eru í þessum breytingum mikilvægar kerfisbreytingar sem hugsaðar eru til þess að styrkja að nýju virðisaukaskattskerfið sem tekjuöflunarkerfi fyrir ríkið, þ.e. með því að fækka undanþágum, draga úr muninum milli kerfanna er vonast til þess að skilvirkni kerfisins vaxi. Með fjárlagafrumvarpinu er birt tafla um skilvirkni virðisaukaskattskerfa margra ríkja og á þeim mælikvarða sem þar er birtur — og þetta birtist í fyrra hefti — sést að skilvirkni íslenska virðisaukaskattskerfisins er lítil. Það eru tveir þættir sem skipta þar mestu máli, annars vegar margar undanþágur, hins vegar mikill munur á milli almenna þrepsins og hins lægra.

Hér er lögð fram tillaga um að bæta úr þessu, auka skilvirkni virðisaukaskattskerfisins án þess að heildarniðurstaðan leiði til aukinnar skattbyrði. Það tel ég að sé framfaraskref, ég tel að við sláum hér tvær flugur í einu höggi, lækkum skatta og bætum skattkerfið.

Vörugjaldakerfið réttlætir síðan alveg sérstaka umræðu. Þetta er neyslustýringarkerfi sem ég tel að sé úrelt og úr sér gengið og að tímabært sé að afnema það. Ég tek eftir því hér í umræðunni að menn gera lítið úr því að þetta skipti máli fyrir heimilin. Staðreyndin er sú að þetta skiptir 6,5 milljörðum fyrir heimilin og atvinnulífið, 6,5 milljörðum. Bara sá hlutinn af vörugjöldunum sem leggst á matvæli er hærri en allir tollar sem leggjast á matvæli, þetta eru um 3 milljarðar. Þannig að ég hafi það nú rétt sem snýr að matvælunum er þetta þannig að um 2/3 þess sem hækkar í neðra þrepinu eru matvæli. Við áætlum að tekjur ríkisins vegna neðra þrepsins fari úr 7 í 12%. Við áætlum að um 2/3 þess séu matvæli, það eru um 7,5 milljarðar. Ef við tökum vörugjöldin frá þeirri tölu erum við með um 4,5 milljarða, satt best að segja einhvers staðar á bilinu 4–4,5 milljarðar. Svo getum við litið til þess að barnabætur verða hækkaðar um 1.300 milljónir.

Ég vil segja rétt í lokin varðandi skattrannsóknarstjóra, það er fjallað um þær breytingar sem gerðar eru á því embætti á bls. 419 og sérstöku átaki til þess að efla skattrannsóknarstjóraembættið er haldið áfram en það er dregið úr viðbótarframlaginu. (Forseti hringir.) Gleymum því ekki að ríkisskattstjóri, sem hefur á fjárlögum 2,7 milljarða, (Forseti hringir.) gegnir líka mjög mikilvægu eftirlitshlutverki og sendir mál sem hann verður var við til skattrannsóknarstjóra, þannig (Forseti hringir.) að það er ekki eingöngu hjá því embætti sem skattrannsóknir fara fram.

Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir málefnalega umræðu og óska nefndinni alls hins besta og vonast eftir góðu samstarfi við hana um framhald málsins.