144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina nokkrum spurningum til hæstv. iðnaðarráðherra og ræða áhrif virðisaukaskattshækkana á heitt vatn og rafmagn á orkureikning landsmanna. Í framhaldi af ræðu hæstv. ráðherra vil ég spyrja hvort þetta séu ekki gamaldags skattahækkanir sem þarna eru á ferðinni, hækkun virðisaukaskatt á heitt vatn og rafmagn þegar orkureikningar eru nógu háir víða um land þótt þetta bætist ekki ofan á. Mig langar að vita hvort ráðuneytið hafi greint þau áhrif sem verða á heimili landsins eftir landsvæðum og hvernig hæstv. ráðherra hyggst koma með hugsanlegar mótvægisaðgerðir við þessar hækkanir í kjölfarið.

Eins og hæstv. ráðherra veit vegur húshitunarkostnaður og rafmagnskostnaður mjög þungt í heimilisbókhaldi landsmanna nú þegar. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan að hækkuð hefði verið fjárhæð til jöfnunar kostnaðar við dreifingu rafmagns í dreifbýli og þéttbýli á þessu ári. Mig langar til að vita hvort ég skildi það rétt að það hafi orðið 300 millj. kr. hækkun þar á milli ára.

Þegar talað er um það í fjárlagafrumvarpinu að flutningsjöfnun í dreifbýli hækki úr 500 milljónum í 850 milljónir vil ég gjarnan vita hvort gert sé ráð fyrir því að frumvarpið um jöfnun kostnaðar á dreifingu á rafmagni, þ.e. jöfnunargjaldið, verði samþykkt á yfirstandandi þingi óbreytt. Ég undirstrika líka að mér finnst mjög mikilvægt að stóriðjan taki þátt í þessu jöfnunargjaldi og vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé lagalega óframkvæmanlegt. Nú var lagður sérstakur skattur á stóriðjuna sem ég held að sé runnin út, það gjald sem var lagt á stóriðjuna sérstaklega eftir hrunið. Er ekki lagaleg heimild fyrir því að ríkið láti stóriðjuna taka þátt í jöfnun orkuverðs í landinu?

Nú skil ég það þannig að niðurgreiðslur til húshitunar í fjárlagafrumvarpinu séu óbreyttar og ætla að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort sú upphæð hafi verið óbreytt frá árinu 2013 og hvort ekki séu einhverjar fyrirætlanir um að leggja meira (Forseti hringir.) fjármagn í þann lið.