144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér finnst ekki nógu gott að heyra að hæstv. ráðherra hafi ekki hug á því að skoða þetta með stóriðjuna. Mér finnst það réttlætismál, burt séð frá því hvort stóriðjan er innan dreifiveitna. Mér finnst það annar handleggur. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á hefur þessi jöfnun eins og hún er útfærð í dag, í frumvarpinu sem verður lagt hér fram um jöfnun orkuverðs, áhrif til hækkunar á þau svæði þar sem kynt er með rafmagni. Þau svæði koma ekki nógu vel út í því sambandi og þarf að mæta þeim svæðum á einhvern annan hátt. Ég vildi gjarnan heyra áform hæstv. ráðherra um það að landsmenn geti horft fram á að orkuverð sé jafnað í landinu, að þar sitji menn við sama borð.

Það var mjög fróðlegt að heyra fréttir Ríkisútvarpsins í gær þar sem kom fram að orkukostnaður í dreifbýli á ári er 329 þús. kr. en hér á höfuðborgarsvæðinu er hann 185 þús. kr. á heimili á ári, við erum að tala um að meðaltali á heimili. Það er gífurlegur munur þarna á milli og er mikið réttlætismál að gengið sé alla leið í því að jafna orkuverð milli landsmanna, að þeir sitji þar við sama borð. Ég tel að þessi auðlind sé í raun sameign þjóðarinnar og þar sé engin stóriðja eða stórfyrirtæki undanskilin í því að taka samfélagslega ábyrgð og jafna orkuverð varanlega. Þær útfærslur sem komu frá hópi (Forseti hringir.) sem var skipaður á síðasta kjörtímabili voru mjög skynsamlegar. Þar var í forsvari sjálfstæðismaður í Ólafsvík, Kristinn Jónasson, (Forseti hringir.) og tel ég rétt að dusta rykið af þeim tillögum.