144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:59]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef lítinn tíma haft til þess að gaumgæfa þetta allt saman en þetta er svo sem bara 1. umr. þannig að við dembum okkur í það sem efst er á baugi. Fyrst aðeins að ferðamannapassanum og uppbyggingu ferðamannastaða. Það liggur fyrir að það á að lækka framlög í þá uppbyggingu á þessu ári úr 260 milljónum í 140 milljónir. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að það lægi fyrir að ekki vantaði fjármagn, það strandaði ekki á fjármagni frá ríkinu, til að ferðamannastaðir væru í uppbyggingu. Það vakti mikla athygli mína af því að hún sagði að það strandaði á sveitarfélögunum, skipulaginu þar og áætlunum. Þetta er nokkuð sem ég bara kannast ekki við og mundi vilja fá betri útskýringar á.

Ég þekki til á Geysi og sveitarfélagsins þar, Bláskógabyggðar, þar sem sárvantar uppbyggingu. Sumir landeigendur hafa meira að segja þurft að fara þá leið að hefja gjaldtöku á Geysi sem hefur nú farið sinn veg og mikið verið rætt um í þinginu. Það var gert til þess að vekja athygli á því að þar er allt í niðurníðslu og það þarf fé inn á Geysissvæðið. Þar strandar alls ekki á sveitarfélögunum eða áætlunum eða skipulagi. Ég mundi vilja fá skýringar á þessu.

Ég kem að öðru í seinni ræðunni, en spyr nú: Hvað líður þessum ferðamannapassa eða öðrum leiðum í gjaldtöku í ferðaiðnaði? Það eru 18 mánuðir síðan hæstv. ráðherra talaði um þetta fyrst. Við höfum öll beðið spennt en erum farin að þreytast. Á meðan við bíðum eru hlutirnir ekki í nógu góðu ásigkomulagi, eins og við vitum. Eins og ráðherra veit auðvitað best sjálf er þetta ört vaxandi atvinnugrein og við þurfum að hlúa að henni. Þetta er okkar helsta auðlind en hún verður það ekki öllu lengur ef við ætlum bara að leyfa henni — og láta hana — grotna niður. Ég kalla eftir því að ráðherra tali skýrt um hvað hún ætlar að gera í þessum málum.