144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:02]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Í allri umræðunni um gjaldtöku og fjármögnun uppbyggingar á ferðamannastöðum hef ég alltaf sagt að ég vilji ekki fórna markmiðunum og lokaafurðinni fyrir tímasetninguna. Þess vegna mat ég það svo í vor að ákveðin grundvallaratriði væru enn þá ekki til lykta leidd og þess vegna lagði ég þá vinnu til hliðar í staðinn fyrir að koma með þetta á síðustu dögum þingsins og setja undir mig hausinn eins og stundum er sagt og reyna að keyra þetta í gegn. Samhliða þeirri ákvörðun, einmitt vegna þess að við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að þörfin er brýn, var lögð til 380 millj. kr. aukafjárveiting, ekki upphæð bara ákveðin út í loftið, heldur sérstök 380 millj. kr. fjárveiting án mótframlags til staða þar sem eftirfarandi kröfum væri mætt: Það lægi fyrir framkvæmdaáætlun og það lægi fyrir fjárhagsáætlun. Ég hef orðað það þannig að maðurinn með skófluna og hamarinn ætti að geta mætt eftir helgi og klárað þetta til þess að við kæmum í veg fyrir skemmdir í sumar eða ef það væri einhver staður þar sem öryggi ferðamannanna væri ekki tryggt.

Þetta gekk greiðlega fyrir sig, samningagerðir og allt fór af stað.

Þess vegna fullyrði ég að það strandar ekki á fjármögnun. Ég fór hringinn í sumar, tók nokkrar ferðir, m.a. um Suðurlandið. Ég fór að Geysi sem fékk annaðhvort 20 eða 30 milljónir, ég man ekki hvort, í þessari sérstöku úthlutun. Þar var ekkert byrjað að framkvæma. Samt heyrum við mikið af því í fjölmiðlum að þar liggi allt undir skemmdum. Síðla sumars var enn ekkert byrjað að gera. Það sama á við um Þingvelli. Þar var ekkert byrjað að gera.

Ég spyr: Af hverju?

Á Þingvöllum var sagt: Við eigum eftir að deiliskipuleggja. Við eigum eftir að gera ákveðna hluti. Við erum með teikningar sem eru gamlar.

Það var ekki farið að framkvæma nema á örfáum stöðum. Ég get nefnt Urriðafoss. (Gripið fram í.) Það var frábærlega vel að verki staðið þar. Þar var (Forseti hringir.) maðurinn með hamarinn og gröfuna og allar græjur mættur og búinn að gera þær úrbætur sem hann taldi nauðsynlegar og fékk fjármögnunina fyrir.