144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:09]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ráðherranum fyrir svörin en ég sé mig knúna sem formaður Þingvallanefndar til að blanda mér aðeins í málið, sem ég ætlaði mér svo sem ekki að gera. Mér finnst mjög sérkennilegt, bæði af hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra, að finnast Þingvallanefnd eitthvað á skjön við kerfi hér á landi. Þetta er langelsti þjóðgarður okkar, lög voru samþykkt á Alþingi 1928 um að það yrði þjóðgarður á Þingvöllum þannig að senn líður að 100 ára afmæli hans.

Það er mjög markvisst unnið að framtíðarsýn varðandi Þingvelli, hefur verið gert og það stendur einmitt núna yfir endurskoðun á þeirri stefnumörkun. Ef nokkurn tímann hefur verið nauðsynlegt að hafa lög um Þingvelli og nefnd yfir Þingvöllum finnst mér það vera núna. Það er ekki langt í 2030, hvernig við ætlum að halda upp á 1100 ára afmæli staðarins og Alþingis.

Sú úthlutun sem við fengum í sumar var tiltölulega mjög lítil upphæð, mig minnir að það hafi verið 12 eða 14 milljónir í eitt verkefni og 2 eða 3 milljónir í annað. Það sem við ætluðum að nýta þessa peninga í er að bæta aðgengi við Flosagjá vegna þess að þessi mikli ferðamannastraumur á Þingvöllum sem annars staðar skilur eftir sig dálítið sviðna jörð.

Ég veit ekki betur en að sú framkvæmd sé að fara í gang einmitt á þessum vikum eða dögum. Ég þakka auðvitað fyrir þá fjárhæð en mér finnst ekki hafa strandað á því að það hafi ekki legið fyrir áætlanir hvað við vildum gera við þessa peninga.