144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. „Hún er glöð á góðum degi, glóbjart liðast hár um kinn.“ Þannig fannst mér hæstv. ráðherra vera þegar hún gekk hingað til þessara umræðu. Síðan hefur gleðin aðeins dropið af hæstv. ráðherra. Henni er ekki vel við það að hún sé gagnrýnd.

Það sem hér hefur þó komið fram við þessa umræðu er að hver einasti þingmaður sem hingað til hefur tekið þátt í umræðunni hefur gagnrýnt hæstv. ráðherra fyrir aðkomu hennar að ferðamálum. Nú er það svo að ég tel að þessi ráðherra hafi margt gott gert og þó best þegar hún getur stutt sig við þau haldreipi sem forverar hennar skildu eftir.

Ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra fyrir það að hún er að gera prýðisgóða hluti við að halda áfram skattalegum ívilnunum gagnvart nýsköpun. Hún er sömuleiðis að gera fína hluti vegna kvikmyndagerðar og jafnframt varðandi hönnunarstefnu. Þetta eru allt haldreipi sem lesa sig aftur til fyrri ríkisstjórnar. Þar er hún góð. En um leið og hún tekur á þessu vandamáli, sem hún sjálf gat sér orð fyrir að lýsa sem ótæpilegu þegar hún var í stjórnarandstöðu, þ.e. ástandinu á ferðamannastöðum, þá fatast henni flug og hún missir fótanna. Það er staðreyndin.

Þessi hæstv. ráðherra hafði uppi stór orð um að það þyrfti að taka til hendinni þar. Það átti að henda plástraaðferðinni eins og hún sagði. Hvað hefur síðan gerst? Þessi ríkisstjórn hefur staðið í því að plástra vangetu hennar eins og hún lýsti sjálf með 380 millj. kr. framlagi vegna þess að hún kom ekki fram frumvarpi um náttúrupassa eða hvað sem menn vilja kalla það. Það er staðreyndin. Hæstv. ráðherra verður bara að horfast í augu við það.

Það er annað sem hún þarf að horfast í augu við. Man þingheimur eftir því að þessi hæstv. ráðherra var í forustu þeirra sem hér réðust að fyrri ríkisstjórn fyrir þá ósvinnu að ætla að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu með árs fyrirvara? Hvað er hún að gera núna sjálf? Hún er að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu með þriggja mánaða fyrirvara. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hún að styðja það?

Síðan í lokin, herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem telja að það séu miklir möguleikar á því að skoða lagningu sæstrengs til útlanda til að flytja raforku til útlanda. Menn geta verið með því og á móti. Við þurfum að skoða það í botn. Mig rak auðvitað í rogastans þegar hæstv. ráðherra hvatti þingmenn til þess að fara sér hægt í þessu máli hér í umræðu fyrir hartnær ári. Núna heyrði ég á ráðstefnu að hæstv. ráðherra var hins vegar farin að tala um margs konar verkefni sem væru það stór að vöxtum að þyrfti jafnvel að bjóða þau út. Hvar sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu?