144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég skal róa hv. þingmann algjörlega, ég er mjög glöð. Og það má svo sannarlega gagnrýna þá sem hér stendur en þá verða þingmenn líka að geta tekið því að ég sé ekki alltaf sammála.

Varðandi ferðamálin er það rétt að þau hafa tafist. Ég útskýrði það áðan að ég ætla ekki að fórna afurðinni, sáttinni og samstöðunni og lausninni sem við komum okkur saman um fyrir tímasetninguna. Það er þess vegna. Hv. þingmaður má kalla það plástur. Mér er alveg sama, það má kalla það það. Þetta eru vinnubrögð sem ég, af því að hv. þingmaður rifjaði upp ummæli mín í stjórnarandstöðu, hvatti hæstv. ríkisstjórn á þeim tíma til að taka upp, hvatti hana til að undirbúa málin sín betur, að koma ekki með einhverja hrákasmíð sem þyrfti svo endalaust að vera að gera breytingar á. Hæstv. ríkisstjórn hefði betur hlustað.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að hæstv. þáverandi ríkisstjórn hafi ætlað að hækka virðisaukaskatt á gistingu með ársfyrirvara. Nei, þvert á móti, sú hækkun var lögð fram og kynnt í fjárlagafrumvarpinu sem kom út 1. október og átti að taka gildi frá áramótum. Þá vorum við að tala um hækkun á eina einstaka atvinnugrein úr 7% í 25,5%, þó að það væri reyndar dregið til baka eins og þessi ríkisstjórn gerði alltaf.

Núna erum við að fara í almenna breytingu á virðisaukaskattskerfinu með ýmsum mótvægisaðgerðum. Það hefði verið miklu betra ef við hefðum getað gert það langt inn í framtíðina, en við gerum þetta núna og komum til móts við almenning í landinu með margvíslegum hætti. Ferðaþjónustan eins og aðrar atvinnugreinar sem reiða sig á neðra þrepið situr núna við sama borð. Það er verið að gera almennar breytingar. Það er grundvallarmunur á.

Varðandi sæstrenginn get ég upplýst hv. þingmann, ég veit ekki hvort hann var á þessum fundi, (Forseti hringir.) að fyrrverandi kollegi hans, fyrrverandi olíumálaráðherra og orkumálaráðherra Noregs, svaraði spurningunni í lokaorðum sínum (Forseti hringir.) á þessari ráðstefnu með þeim orðum að hann teldi að íslensk stjórnvöld og íslenska ríkisstjórnin héldu afar vel á (Forseti hringir.) sæstrengsmálunum.