144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:33]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er einmitt með þrjú markmið að leiðarljósi sem við fórum í þessa vinnu, þ.e. að vernda náttúruna, laga þar sem ágangur er of mikill og bæta þar úr, í öðru lagi að dreifa álaginu á fleiri staði til þess að jafna það um landið og í þriðja lagi að tryggja öryggi ferðamanna. Þetta eru þau leiðarljós sem við höfum að markmiði og það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru fjölmargar leiðir til þess og við höfum líka verið að nýta tímann í sumar til að fara betur yfir það.

Hér í umræðunni hefur oft verið spurt: Af hverju er verið að gera einfalda hluti svona flókna? Af hverju leggið þið ekki bara á brottfarargjöld, ESTA-gjöld, landamæragjöld, hin og þessi gjöld? Þetta er gert annars staðar, mismunun á milli Íslendinga og útlendinga og allt þetta.

Við erum búin að vera í ítarlegu samtali við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, nýlega og í sumar. Við höfum fengið ráðleggingar þeirra og upplýsingar um það sem við raunar héldum en vorum að fá tryggingu fyrir, að þessir hlutir sem menn skella dálítið fram í umræðunni að séu svo einfaldir eru flóknari vegna skuldbindinga okkar, bæði EES-skuldbindinga og Schengen. Landamæragjald er til dæmis ekki í boði. Við gætum jú mismunað gagnvart öllum sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins en við getum ekki gert það innan EES. Þannig er það. Það eru dómafordæmi fyrir því.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er að gera frábæra hluti fyrir takmarkaða fjármuni. Það vitum við og það er þess vegna sem við erum í þessari vinnu til að fá varanlega lausn á þeirri fjármögnun. Ég fagna því hversu mikill áhugi er í þessum sal á þessum málum og treysti því að þegar frumvarpið kemur — og ég sagði nú ekki að það væri innan nokkurra mánaða, það var einhver misheyrn hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Auðvitað er þetta brýnt en það er líka brýnt að við vöndum okkur. Þess vegna munum við halda áfram og leggja fram frumvarpið eins fljótt og auðið er, svo ég ítreki það.