144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjárlaga næsta árs og ég mun gera grein fyrir þeim þætti sem snýr að verkefnum dómsmálaráðherra. Eins og kunnugt er hafa málefni dómstóla, lögreglu og ákæruvalds verið færð undir ábyrgðarsvið mitt sem dómsmálaráðherra, byggt á forsetaúrskurði 27. ágúst 2014, um breytingu á forsetaúrskurði nr. 72/2013, um skiptingu starfa ráðherra.

Í frumvarpinu eru málefni innanríkisráðherra og dómsmálaráðherra sett fram í kaflanum um innanríkisráðuneytið en hvor ráðherra um sig mun gera grein fyrir þeim málum sem heyra undir ábyrgðarsvið hans.

Innanríkisráðherra mun gera grein fyrir heildarútgjaldabreytingum ráðuneytisins en ég mun hins vegar gera grein fyrir helstu áhrifaþáttum sem snúa að dómsmálaráðherra.

Forgangsröðun verkefna dómsmálaráðherra lýtur fyrst og fremst að því að treysta rekstrargrundvöll héraðsdómstóla, tryggja verkefni sérstaks saksóknara og leggja áherslu á áframhaldandi eflingu löggæslunnar í landinu. Þá er skýr útfærsla á aðhaldsaðgerðum til að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög.

Á flest verkefni er gerð um 1,5% aðhaldskrafa en sum verkefni eru þó undanskilin þar sem ekki er um að ræða eiginlega rekstrarliði. Eins og fram hefur komið er áhersla lögð á að treysta rekstrargrundvöll héraðsdómstóla, lögð er til 95 millj. kr. hækkun fjárveitinga frá gildandi fjárlögum vegna aðhaldskrafna sem gerðar voru á árunum 2009–2014. Nánari skoðun hefur sýnt að þær aðhaldskröfur sem gerðar voru á önnur gjöld héraðsdómstólanna voru einnig gerðar á laun héraðsdómara. Launaútgjöld eru stærsti kostnaðarliður dómstólanna, fjöldi dómara er lögbundinn og launin ákvörðuð af kjararáði. Því eru ekki rök til að hagræða með þeim hætti sem gert var.

Þetta er leiðrétt með þessari tillögu og gilda þá sömu reglur um laun héraðsdómara og laun hæstaréttardómara sem ekki hafa tekið almennri hagræðingu. Með þessu er leitast við að treysta betur fjárhagsstöðu og starfsemi héraðsdómstólanna.

Sem kunnugt er hafa verið uppi áform um að breyta framtíðarskipan efnahagsbrotarannsókna sem hefur hugsanlega áhrif á hvernig fer með fjárveitingar til embættis sérstaks saksóknara. Í lögum um embættið sem samþykkt voru í desember 2008 segir í 7. gr. að ráðherra geti eftir 1. janúar 2011 lagt til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að embættið verði lagt niður. Skal hann þá leggja fyrir Alþingi frumvarp þess efnis.

Ekki liggur fyrir endanleg útfærsla á framtíðarfyrirkomulagi efnahagsbrotarannsókna og framtíðarskipan ákæruvalds almennt en ráðherra mun á þessu þingi leggja fram tillögur um framtíðarsýn ákæruvalds, þ.e. á fyrirkomulagi á rannsókn og saksókn efnahagsbrota.

Lögð er til 150 millj. kr. fjárveiting á næsta ári til að ljúka eldri málum hjá sérstökum saksóknara sem tengjast efnahagshruninu. Embættið mun þannig hafa samtals um 292 millj. kr. til uppgjörs eldri mála og í rekstur starfseiningar sem ætlað er að fara með rannsókn efnahagsbrota.

Efling löggæslunnar í landinu hefur verið eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar og á því verður engin breyting á næsta ári. Á yfirstandandi ári voru varanlegar fjárveitingar til lögreglunnar auknar um 500 millj. kr. til fjölgunar lögreglumanna í landinu, í aukinn aksturskostnað og til að efla fræðslu og búnað lögregluliðanna.

Þá var ríkislögreglustjóra falin yfirumsjón með skipulagningu verkefnis er miðar að heilsueflingu starfsmanna.

Í vinnu síðustu missira hafa miklar væntingar verið bundnar við áhrif aðskilnaðar löggæslu- og sýslumannsembætta og sameiningu lögregluembætta þar sem gert er ráð fyrir að lögregluumdæmum fækki úr 15 í níu. Þessar breytingar taka gildi um næstu áramót. Með fækkun og stækkun lögregluumdæma verða til öflugri lögreglulið sem gefur færi á því að sinna sem flestum verkefnum sjálfstætt.

Þá verður áfram fylgst með og horft til þróunar lögreglunnar annars staðar á Norðurlöndum. Það á ekki síst við um áhersluna á árangursmiðaða stjórnun með uppbyggingu nothæfra mælikvarða svo hægt verði að bera saman árangur svæðisbundinna lögregluliða sem gegna sambærilegum viðfangsefnum.

Þá er rétt að nefna að nú er unnið að löggæsluáætlun og þar eru settar fram tillögur um aðgerðir, forgangsröðun og fjármagn til þeirra. Markmið hennar eru meðal annars að tryggja réttaröryggi og efla öryggiskennd borgaranna, að lögreglan njóti almenns trausts, að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta meðferð við rannsókn mála og hagkvæma nýtingu fjár til löggæslumála.

Löggæsluáætlunin skal annars vegar vera stefnumarkandi til 12 ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fjögurra ára og skal ná til landsins alls en jafnframt taka mið af sérstöðu hvers lögregluembættis fyrir sig og innihalda skýr, raunhæf, tímasett og mælanleg markmið.

Nú er unnið að tillögu til ráðherra um löggæsluáætlun sem áætlað er að leggja fyrir Alþingi á komandi vetri. Rannsóknarhluti löggæsluáætlunar tengist einnig áætlun um réttaröryggi þar sem samspil rannsókna, saksóknar, dómstóla og fullnustu er greint og skipulagt. Með því verður í fyrsta sinn lögð fram heildstæð langtímaáætlun um réttarvörslukerfið, framtíðarskipan þess og fjárveitingar tengdar við aðgerðir.