144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:47]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Á lokasprettinum tókst hv. þingmanni að tengja þetta mál eins og öll önnur mál að undanförnu við þann millistríðsárasósíalisma sem hann boðar, en það var býsna langsótt tenging vegna þess að það stendur til, eins og kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu og ég gerði grein fyrir áðan, að standa vörð um hlutverk embættis sérstaks saksóknara og lögreglu í efnahagsrannsóknum. Það er ekki rétt að verið sé að sverfa að embættinu, þvert á móti, framlög til embættisins eru meiri. Þau hafa verið aukin frá því sem ráð var fyrir gert þegar það var sett á stofn og gert ráð fyrir að það geti þá starfað heldur lengur en menn höfðu áætlað. Nú er að sjálfsögðu verið að vinna að framtíðarskipan þess embættis í samræmi við aðra vinnu sem hefur verið í gangi og hófst raunar á síðasta kjörtímabili og var þá frestað nokkrum sinnum, þ.e. vinnu við framtíðarskipan þessara mála.

Ég vil svo bara nefna það almennt við hv. þingmenn að eigi umræða í þinginu, hvort sem er um fjárlög eða aðra hluti, að vera til þess fallin að leiða menn að skynsamlegri niðurstöðu, vera upplýsandi og gagnleg þá borgar sig að menn ræði þau mál sem eru til umræðu hverju sinni. Hér erum við að ræða löggæslu- og dómsmál. Ef hv. þingmaður vill fyrst og fremst nota það sem tækifæri til að vekja athygli á öðrum málum sem eru honum hugleikin þá getur hann svo sem gert það en það leiðir þá ekki til gagnlegrar eða upplýsandi umræðum um löggæslu- og dómsmál, en það er tilgangurinn með þessum lið hér í dag.