144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég leitast oft við að brjóta blað í stjórnmálasögunni en það hafa orðið önnur tilefni til þess að ræða það og þau verða fleiri. Hins vegar hefur hv. þingmaður mörg tækifæri til þess að ræða fjárlagafrumvarpið. Það verður auðvitað sérstök almenn umræða um fjárlagafrumvarpið og svo verða ráðherrar hér í fyrirspurnatíma og það er ýmis vettvangur fyrir hv. þingmann til þess að ræða þessi hugðarefni sín. Ég held að það færi vel á því að menn gæfu þessum mikilvæga málaflokki, sem dóms- og löggæslumál og saksókn eru það svigrúm að þeir ræddu þau hér í þar til gerðum umræðutíma.

Hvað varðar hins vegar athugasemdir hv. þingmanns um fyrirkomulag saksóknar og stöðu sérstaks saksóknara þá er einfaldlega verið að fylgja þeirri stefnu sem var mótuð í tíð síðustu ríkisstjórnar og klára hana, reyndar með viðbót, með viðbót vegna þess að það reyndist meiri þörf fyrir fjármagn í þennan málaflokk en síðasta ríkisstjórn hafði gert ráð fyrir. Ég mun síðan ásamt fólki úr ráðuneytinu funda með sérstökum saksóknara og fulltrúum hans væntanlega í næstu viku til þess að ræða stöðu embættisins og þarfir þess. Að sjálfsögðu verður sú staða skoðuð í samhengi við aðra endurskoðun þessara mála til þess að út úr því komi sem öflugast, skilvirkast og best fyrirkomulag þessara mála.