144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú verður forseti að skýra fyrir okkur þingmönnum með hvaða hætti þessi umræða er skipulögð. Það var ekki ætlunin að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yrði hér til svara í þeim áætlunum sem lágu fyrir en það var sérstaklega eftir því óskað að hann kæmi hingað og svaraði fyrir sína málaflokka. Hér hefur verið kynntur forsætis- og dómsmálaráðherra til svara á dagskrá þingsins. Nú er að skilja á forsætisráðherra að hann sem forsætisráðherra sé ekki hér til svara heldur bara sá hluti af honum sem er dómsmálaráðherra.

Áður en lengra er haldið í því að spyrja Sigmund Davíð Gunnlaugsson út úr þá vil ég bara árétta hvort það sé ekki rétt skilið, samkvæmt dagskrá þingsins, að hér sé til andsvara forsætis- og dómsmálaráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson en ekki bara dómsmálaráðherrahlutinn af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.