144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þessar ábendingar hv. þm. Helga Hjörvars um að það er mikilvægt að það liggi fyrir út á hvað þetta samtal þingmanna hér við hæstv. ráðherra gengur. Í plaggi sem við þingflokksformenn fengum sent frá þingfundaskrifstofu í gær kemur fram að hæstv. ráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé hér sem bæði forsætis- og dómsmálaráðherra enda er það svo að efnisleg atriði heyra undir hann sem forsætisráðherra, til að mynda græna hagkerfið, húsvernd, menningarminjar, þjóðmenning og ýmislegt annað sem full ástæða er til að ræða við ráðherrann undir þessum lið, rétt eins og aðra fagráðherra.