144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég geri enga athugasemd við það að á listanum standi að hér séu fagráðherrar til svara en nú vill svo til að hæstv. forsætisráðherra er fagráðherra. Hann fer með fagleg málefni menningararfsins í sínu ráðuneyti eins og hefur komið fram hjá öðrum þeim hv. þingmönnum sem hafa kvatt sér hljóðs.

Ég tel ekki skýringu virðulegs forseta fullnægjandi, að það að hér sé eingöngu talað um fagráðherra útiloki á einhvern hátt forsætisráðherra. Spurningin sem ég var með, hæstv. forseti, laut ekki að hlutverki forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar, hún laut að því faglega, að þeim málaflokki sem hæstv. forsætisráðherra fer með.

Ég geri þá kröfu á hendur virðulegum forseta, sem stjórnar hér þingfundi, að það verði tekið til skoðunar að hæstv. forsætisráðherra svari fyrir þau fagmálefni sem undir hann heyra. Þetta eru stór málefni, ég ætlast til þess að fá svör við þeim spurningum sem ég var með hér áðan sem lúta að málefnum húsafriðunar og menningarminja.

(Forseti hringir.) Það að eitthvað hafi ekki verið gert í fyrra útskýrir ekkert hvernig þetta er gert í ár.