144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að freista þess að spyrja forsætisráðherra út í málaflokka sem undir hann heyra. Spurningin varðar liðinn græna hagkerfið sem er orðinn hálffurðulegur. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki einfaldara að leggja hann bara niður fyrst það er ekki verið að nýta hann eins og átti að gera. Þá geta þær fjárheimildir sem eiga að fara til Minjastofnunar og aðalskrifstofunnar í rauninni bara farið beint á þá fjárlagaliði. Ég tel mikilsvert að reyna að einfalda fjárlögin þegar það er hægt og ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Svo langar mig líka að spyrja út í lið sem heitir Ýmis verkefni. Þar er sótt um 55 millj. kr. fjárveitingu til að mæta útgjöldum vegna verkefna sem fylgja samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar hverju sinni. Dæmi um mál eru málefni norðurslóða, lýðheilsumál og það markmið að efla byggð í einstökum landshlutum. Þetta eru 55 millj. kr. og væri fróðlegt að fá að vita í hvað þessir peningar eiga að fara. Við erum með lýðheilsusjóði og stofnanir sem sinna lýðheilsumálum annars staðar. Eins erum við með Byggðastofnun og aðra liði sem byggðamálin heyra undir en mér finnst þetta áhugaverður liður.

Svo finnst mér líka merkilegt hvað ríkisstjórnin bólgnar út. Það hefur verið mikil aðhaldskrafa og stofnunum gert að skera niður en á sama tíma eru fjárframlög til ríkisstjórnarinnar búin að hækka um 86 millj. kr. frá 2012. Í fyrra var farið fram á 100 millj. kr. aukafjárframlag. Það kom að einhverju leyti til vegna þess að það urðu ríkisstjórnarskipti og í ár eru 311 millj. kr. ætlaðar í ríkisstjórnina. Vonandi kemur ekkert á fjáraukanum. Svo er enn farið fram á hækkun árið 2015 og mér finnst rétt að þeir sem gera kröfu um sparnað og aðhald hjá öllum stofnunum og í öllum ríkisútgjöldunum líti í eigin barm. Það finnst mér ekki vera gert hér.

Ég hef engar spurningar um dómsmálin en vona að hæstv. ráðherra sjái sér fært að svara einhverju af þessu.