144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég botna ekkert í því hvaða vandræðagang menn eru að búa sér til með alveg fráleitum túlkunum á þingsköpum og þinghefðum. Hvað er hér á dagskrá? Umræða um fjárlög. Hver hefur verið venjan þegar fjárlög eru til umræðu? Jú, að allir ráðherra ríkisstjórnarinnar séu þá gjarnan við þá umræðu til svara fyrir málaflokka sína.

Er það brot á einhverjum þingsköpum að hæstv. forsætis- og núverandi dómsmálaráðherra, sem er hér í sérstöku hólfi í þessari umræðu, svari spurningum fyrir hönd beggja þeirra ráðuneyta sem hann fer með? Nei, auðvitað ekki. Er það brot á þinghefðum? Nei, það væri í samræmi við þær að hæstv. forsætisráðherra væri liðlegur í því að svara öllu því sem hann er spurður að og honum kemur við í þessum fjárlögum sem forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar í fyrsta lagi, sem ráðherrann í forsætisráðuneytinu sem fer með ýmis fagleg málefni og útgjöld í öðru lagi og þá í þriðja lagi núna sem dómsmálaráðherra. Það er fráleitt að halda því fram að það sé nokkuð því í vegi að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum (Forseti hringir.) sem til hans er beint, þ.e. ef þær hafa einhverja tengingu við fjárlögin. Það eina sem mætti gagnrýna hér (Forseti hringir.) væri ef verið væri að spyrja forsætisráðherra út í eitthvað sem alls ekki kæmi fjárlögunum við.