144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er mjög gleðilegt að áfram eigi að auka fjárframlög til lögreglunnar eða löggæslumála um 500 millj. kr. Það sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra að er hvort hann sem dómsmálaráðherra, æðsti yfirmaður löggæslumála í landinu, sé með stefnu í þeim málaflokki sem lýtur að því að bæta fagleg vinnubrögð lögreglunnar til þess að landsmenn geti treyst á störf hennar. Eitt atriði er, sem við þekkjum vel, ungt fólk þekkir það, að lögreglan á það til að stöðva ungt fólk á útihátíðum og öðru slíku og spyrja hvort það megi leita á því. Það má ekki leita án samþykkis en um leið og unga fólkið hafnar leitinni fellur það sjálfkrafa undir grun og lögreglan telur sig hafa rétt til að handtaka það, færa það á lögreglustöð, skemma kvöldið fyrir því. Þannig að í raun virðist fólk, virðast almennir borgarar ekki hafa réttinn til að hafna því að lögreglan leiti á þeim. Það er ekki raunin. Það er ekki upplifunin. Ef fólk hafnar leitinni endar það á lögreglustöð. Það eru alls konar svona atriði. Maður hefur heyrt ýmislegt misjafnt um lögregluna, að sjálfsögðu.

Hefur hæstv. forsætisráðherra einhverja stefnu í þessum málaflokki? Hefur hann hug á því að eyrnamerkja eitthvað og hafa stefnumótandi áhrif á að laun lögreglumanna verði hækkuð, að gerðar verði faglegri kröfur um að menn hafi lokið prófum í því að takast á við erfiðar kringumstæður eða hafi menntun til slíks? Sum okkar munum hvernig þetta var í gamla daga. Ég man meira að segja eftir því, ég rétt náði að kynnast þessum gömlu lögreglumönnum með kaskeitin sem gengu um rólegir og yfirvegaðir. Við þekkjum Geir Jón. Við þekkjum þetta. Svo þekkjum við unga lögreglumenn sem oft eru sumarlöggæslumenn, margir ungir eru svolítið í hasar. Þetta er svolítið skemmtilegt. Þetta er stuð. Sjálfur var ég einu sinni handtekinn við friðsöm mótmæli við Geysissvæðið. Það voru ungir strákar á Selfossi sem tóku okkur inn í bílinn og við spurðum hvers vegna við værum handteknir. Margspurðum, þráspurðum. Það á að gefa upp samkvæmt lögum og stjórnarskrá hvers vegna maður er frelsissviptur. Svarið sem við fengum á endanum, eftir dúk og disk, var: Þetta er ekki bandarísk bíómynd.

Það þarf klárlega faglegri vinnubrögð. Það er hægt að gera það með því að hækka launin og laða þannig að hæfara fólk og það er hægt að gera það með því að auka kröfurnar, hæfniskröfurnar. Hvaða hugmyndir hefur forsætisráðherra hvað þetta varðar?