144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er mjög ánægjulegt. Varðandi vinnuna sem er í gangi með löggæsluna: Geta þingmenn fengið að koma eitthvað að þeirri vinnu? Gæti hæstv. forsætisráðherra kallað eftir að stofnaður yrði starfshópur sem í væri skipað af þingflokkum og hópurinn fengi að taka þátt í þessari vinnu og fylgja henni úr hlaði áður en hún kæmi inn til þingsins? Ég veit að við mundum alveg örugglega skipa aðila úr Snarrót eða álíka samstökum og þannig fengjum við ýmsa aðila, þingflokkarnir geta skipað fulltrúa, fagaðila, sem fylgjast vel með þessu í samfélaginu, verndun borgararéttinda, stöðu borgaranna gagnvart lögreglunni o.s.frv. Að sjálfsögðu er hluti af því að efla gæði starfa lögreglunnar með hærri launum og frekari hæfniskröfum og ferlum og slíku.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er því hvort hann væri tilbúinn til að leyfa þingflokkum þingsins að skipa aðila í nefnd sem mundi fá að taka þátt í þessari vinnu eða fylgjast með henni og koma með tillögur o.s.frv., eitthvað í þá veruna?