144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina. Það er þrennt sem ég vil spyrja hann um hér í dag. Það varðar Landspítalann, áform um frekari einkavæðingu og aukinn lyfjakostnað sjúklinga.

Staða Landspítalans er mikið áhyggjuefni. Útgjöld ríkissjóðs vegna hans verða á næsta ári um 45 þúsund milljónir. Þau hækka að raungildi um 269 milljónir eða 0,5%. Eins og fram hefur komið í fréttum þarf sjúkrahúsið 4% raunhækkun eða um 1.800 milljónir kr. í viðbót við fyrra ár en þá mundi reksturinn samt sem áður standa í járnum. Með þessum 1.800 milljónum yrði hægt að mæta hluta af nauðsynlegu viðhaldi og reka spítalann án frekari niðurskurðar. Samt væri ekki hægt að mæta halla síðasta árs og yfirstandandi árs, sem verður samtals á þriðja milljarð.

Ég spyr hæstv. ráðherra af hverju Landspítalinn fái ekki fjárheimild í samræmi við allra nauðsynlegustu þarfir.

Spurning númer tvö varðar það að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hjúkrunarþjónusta á sjúkrahótelinu verði einkavædd. Sjúkrahótelið hefur verið rekið af einkaaðilum en sérfræðiþjónusta hjúkrunarfræðinga veitt af hálfu Landspítalans. Af hverju vill ráðherra með þessari ákvörðun auka á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þvert á vilja almennings?

Síðan vil ég ræða lyfjakostnað. Gert er ráð fyrir að það dragi úr framlögum ríkisins til niðurgreiðslu á lyfjum um 305 milljónir. Það á að hækka þakið í greiðsluþátttökukerfinu og setja S-merkt lyf sem gefin eru utan sjúkrastofnana undir greiðsluþakið. (Forseti hringir.) Ég spyr ráðherra: Telur hann þörf á hækkun lyfjakostnaðar sjúklinga?