144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þau svör sem komin eru. En ég vil vara við því, með fullri virðingu fyrir hv. fjárlaganefnd, að fjárlagafrumvarpinu sé skilað þannig að það sé upp á náð og miskunn fjárlaganefndar komið hvort nauðsynlegt fjármagn til rekstrar heilbrigðisþjónustu fáist. Það á að koma að mínu mati fram í frumvarpinu tillaga um rekstrarfé sem dugar fyrir rekstri Landspítalans. Það er, án þess að hér sé farið með nokkrar ýkjur, uppi mjög alvarleg staða í rekstri þeirrar stærstu stofnunar ríkisins.

Varðandi einkavæðinguna á sjúkrahótelinu þá er einkavæðing og einkarekstur nú að mínu mati mjög svipað þó að deila megi um það og það gerum við á öðrum vettvangi. En á nýja Landspítalanum, þegar verður búið að endurnýja húsakostinn, er hluti af rekstrarhagræðinu einmitt það að Landspítalinn reki sjúkrahótel og það er hluti af hinu hagfellda rekstrarmódeli nýja sjúkrahússins. Ég vona að ekki sé verið að stefna að því að einkaaðilar reki það sjúkrahótel, því að það mundi umturna öllum áætlunum. Þess vegna finnst mér bagalegt að verið sé að auka á einkarekstur á sjúkrahótelinu frekar en að stefna að því að afnema hann til framtíðar.

Spurning mín um lyfjakostnaðinn varðar S-merktu lyfin sem segir að eigi að setja undir greiðsluþakið ef þau eru gefin utan sjúkrastofnana. Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því að það muni draga úr innritun sjúklinga á sjúkrahús eða flýta fyrir útskrift þeirra ef opinberir aðilar geta dregið úr kostnaði sínum af þessum mikilvægu en jafnframt dýru lyfjum?