144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil segja í því sambandi að þegar rætt er um agann í ríkisfjármálum ber vissulega að undirstrika hann, tvímælalaust, og ég veit það bara af samtölum mínum við forsvarsmenn þeirra stofnana sem tengjast mínum málaflokki, heilbrigðismálunum, að þeir leggja sig fram um að fylgja þeim ákvörðunum sem Alþingi tekur varðandi fjárframlög til rekstrar þeirra þjónustuþátta sem þeim er ætlað að sinna.

Á sama tíma og við segjum það og gerum eðlilega kröfu til þeirra um að virða fjárlögin verðum við líka að horfa til þess og verðum þá einhvern veginn að geta rætt það af sanngirni af beggja hálfu hvaða sveigja á að vera í ákveðnum þjónustuþáttum varðandi fjármögnun þeirra. Ég hef góðan skilning á því að í sumum tilfellum geta komið upp aðstæður í rekstri stofnana ríkisins sem kalla á að þær hafi sveigjanleika. Ég var dálítið bundinn við þá hugsun þau ár sem ég sat í fjárlaganefnd að við yrðum einhvern veginn að koma betra formi á samskipti framkvæmdarvaldsins við þingið varðandi rekstrarlega þætti hjá ríkinu, þ.e. að við ættum að geta tekið það fyrir örar en einu sinni á ári í formi fjáraukalaga ef við á annað borð ætlum að gera breytingar á fjárlögum yfirstandandi árs. Þá er í mínum huga eðlilegra að reyna að finna einhverja farvegi til að gera það jöfnum höndum. Menn þyrftu að rökstyðja sitt mál og koma fram með beiðni, svo væri tekin afstaða til hennar. Ef það er fallist á hana eru útlátin heimiluð en annars er haldið við fyrri ákvörðun.