144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra. Mig langar að ræða við hann um sameiningu heilbrigðisstofnana og vilja sveitarfélaga, eins og Akureyrarbæjar og Hafnar í Hornafirði, til að reka áfram heilsugæslu eins og þau hafa gert í fjölda ára. Ég vil einnig koma inn á óskir Vesturbyggðar um að fá að reka heilsugæslu hjá sér til að samnýta með félagsþjónustu sveitarfélagsins. Ég ætla bara að vera með beinar spurningar hér í upphafi og spyr hvað sameiningu heilbrigðisstofnana líði, sameiningu sem unnið hefur verið að í ráðuneytinu. Hvernig er samráði við heimamenn háttað, hvernig hefur það verið? Hver er kostnaður við þessar sameiningar heilbrigðisstofnana í fjárlagafrumvarpinu? Hver er fyrirhugaður sparnaður við þessar sameiningar og hvaða breytingum tekur þjónusta heilbrigðisstofnana eftir sameiningu?

Varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum: Er raunhæft að sameina heilbrigðisstofnanir þar meðan samgöngur eru eins og þær eru á milli svæða, er raunhæft að sameina þær fyrr en Dýrafjarðargöngin verða orðin að veruleika?

Ég átti sæti í velferðarnefnd og velferðarnefnd fór fyrr á þessu ári í heimsókn til Eyjafjarðar. Við áttum fund með bæjarstjórn Akureyrar þar sem kom fram að mikil ánægja var með rekstur heilsugæslunnar á Akureyri, að Akureyrarbær ræki hana áfram, þó að vissulega vantaði fjármuni inn í reksturinn. Bæjarstjórnarmenn töldu að leiðrétta þyrfti þann halla en mikil ánægja var hjá bæjaryfirvöldum með þennan rekstur. Þar sem hæstv. ráðherra er fyrrverandi bæjarstjóri Akureyrarbæjar og ég hef skilið það þannig að hann hafi verið ánægður með þetta módel þegar hann var þar bæjarstjóri vil ég gjarnan vita hvaða áform eru uppi varðandi áframhald á rekstri heilsugæslunnar á Akureyri og samning við Akureyrarbæ og líka við Höfn í Hornafirði eins og ég hef nefnt hér.