144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Eftir sameiningu eiga breytingar á þjónustu ekki að verða aðrar en þær, samkvæmt okkar áherslum, en að við styrkjum þjónustuna á öllum þessum stöðum. Ekki stendur til að loka heilsugæslu eða starfsstöðvum sem eru í rekstri, það skal undirstrikað. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að við getum styrkt faglegt starf á þessum svæðum betur en ella væri. Það er samdóma álit flestra þeirra sem ég hef leitað til um álit á þessu, þannig að það liggi alveg fyrir.

Varðandi það sem rætt er hér um þetta módel, sem er stundum kallað Akureyrarmódelið, þá er engin ástæða til að fórna þeim ávinningi sem náðst hefur af samþættingu félagsþjónustu og heilsugæslu. Það þarf ekkert að fórna því þrátt fyrir að ríkið taki yfir rekstur heilsugæslunnar aftur og sveitarfélagið sjái um félagslega heimaþjónustu, það er langur vegur frá því að svo sé. Ég held að þvert á móti sé ágætistími til að brjóta upp þetta fyrirkomulag og fara kannski í gegnum það að nýju. Lögin um reynslusveitarfélög voru sett 1996 og þau runnu út árið 2003. Frá þeim tíma hefur þetta verið gert í formi þjónustu- eða verktakasamninga. Og þegar maður sér þetta ganga þannig eru á þessu mjög miklir agnúar sem ég kemst því miður ekki yfir að rekja hér.

Ég rak þessa starfsemi frá 1998 til ársins 2006. Það gekk mjög vel. Þó varð það erfiðara eftir því sem leið á tímann og sérstaklega eftir að lögin um reynslusveitarfélögin runnu út. Ég þekki þetta því ágætlega. Reynslan af þessu var góð en hin síðustu ár segja sveitarstjórnarmenn á Akureyri að þeir hafi rekið þetta með 160–180 millj. kr. tapi. (Forseti hringir.) Það er algjörlega óásættanlegt fyrir íbúa á Akureyri að sveitarstjórnarmenn þar séu að ráðstafa fjármunum úr þeirra sjóðum til að fjármagna (Forseti hringir.) rekstur sem ríkið á að greiða.