144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Stutta svarið við spurningunni er að ég veit það ekki, ég veit ekki hvað svona leið mundi kosta. Ég veit það hins vegar að í nágrannaríkjum okkar, af því mönnum er oft tíðrætt um hina norrænu velferð þegar við ræðum heilbrigðis- og velferðarmál á Íslandi, t.d. í Danmörku er við lýði allt annars konar tryggingakerfi en við höfum. Við höfum tryggt þetta með lögum. Íslendingar eru sjúkratryggðir og við greiðum skatta og þeir eiga að fara í þetta. Í Danmörku er þetta með öðrum hætti. Þar tryggir einstaklingurinn sig hjá félagi, m.a. fyrir heilbrigðiskostnaði. Þannig kerfi virkar ágætlega. Þá greiða tryggingarnar þann kostnað sem einstaklingurinn verður fyrir þegar hann þarf á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.

Varðandi áhyggjur af veikindum t.d. barna o.s.frv. þá vara ég líka við því að við tölum um þetta í alhæfingum því í mjög mörgum og sennilega flestum tilvikum þurfa Íslendingar ekki að hafa áhyggjur af kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Það eru hins vegar stórir hópar í þjóðfélaginu sem við erum að streitast við að reyna að finna réttarbót fyrir í þessum efnum sem verða fyrir gríðarlega miklum útgjöldum. En bráðaveikindum og öðru þvíumlíku, því er einfaldlega sinnt.

Óneitanlega hefur sú þróun átt sér stað á Íslandi á síðustu árum að hlutdeild sjúklinga í kostnaði af heilbrigðisþjónustu hefur vaxið. Þó vil ég nefna það hér í tengslum við umdeilt mál sem lýtur að fjármögnun heilbrigðiskostnaðar og hefur ekki vakið neina athygli er að kostnaður sjúklinga vegna sérgreinalækna fór úr því að vera 42% niður í 32% (Forseti hringir.) 1. janúar síðastliðinn. Það hefur enginn haft mörg orð um þá staðreynd. Þvert á móti hafa menn verið að ræða allt aðra hluti.