144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka svörin sem ég var þó ekki ánægð með. Það var búið að leggja hér fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar hvað varðaði ellilífeyrisþega og ég harma að ekki hafi verið metnaður hjá ráðherra til að leggja það fram aftur og þá með einhverjum breytingum sem hefði verið einfalt að gera heldur seinkar þeim umbótum ár eftir ár.

Ég hefði áhuga á að vita hvaða stærðargráðu við erum að tala um varðandi húsaleigubætur eða húsnæðisbætur ef til kemur. Það er ekki búið að breyta lögum um Íbúðalánasjóð. Það kemur fram í frumvarpinu að til standi að leggja hann niður og það er reiknaður sparnaður af því. Það er ekki orðið að lögum og ekki komið fram frumvarp, en það virðist gilda annað þegar það lýtur að útgjöldum til leigjenda. Þá þarf að bíða eftir frumvarpi og ekki hægt að gefa neitt upp um fyrirhugaða hækkun á húsaleigubótum.

Ég sakna svars við því hvernig eigi að mæta leigu- og búseturéttarfélögum sem ekki fengu lækkun á skuldum.

Svo langar mig að bæta við spurningum um fæðingarorlofið. Af hverju er það ekki hækkað? Síðasta haust var lögum um fæðingarorlof breytt og hætt við að lengja það. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði hækkað fæðingarorlofið um 50 þús. kr. Núverandi ríkisstjórn hækkaði það um 20 þús. kr. og sagði mikilvægara að hækka orlofið en að lengja það. Nú á sem sagt hvorki að hækka né lengja — en það á að skipa nefnd. Af hverju leggur ráðherra ekki til hækkun á árinu 2015 í samræmi við þá skoðun sína frá fyrra ári að það sé svo mikilvægt?