144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef þungar áhyggjur af þeim byrðum sem munu leggjast á fólk sem er svo óheppið að veikjast og þurfa að taka inn lyf, hvort sem þau eru afgreidd út úr hinu almenna lyfjakerfi eða S-merkt lyf, sérhæfð sjúkrahúslyf þar sem notkunin er háð mjög ströngum skilyrðum. Mig langar að nota tækifærið hér til þess að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra út í atriði sem lúta að hennar hlið á þessu máli, þ.e. lífeyristryggingakerfinu.

Ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar á kostnaðarþátttöku komi til með að hafa á hag öryrkja sem eðli málsins samkvæmt bera sumir hverjir mjög þungan lyfjakostnað, en nýjar rannsóknir hafa sýnt að örorkulífeyrisþegar fresta læknisheimsóknum og þeir fresta að leysa út lyf vegna kostnaðar. Svo virðist sem sérstök uppbót lífeyrisþega, sem á m.a. að mæta þessum mikla lyfjakostnaði, nái engan veginn að létta þar undir.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Auk þess er lagt til að veita 72 millj. kr. auknu framlagi til að hækka tekjuviðmið gagnvart frekari uppbótum sem verið hefur óbreytt frá árinu 2010. Slíkar uppbætur eru m.a. greiddar til einstaklinga sem hafa mikinn lyfjakostnað, þarfnast umönnunar annars aðila eða hafa kostnað af dvöl á sambýli.“

Ég er að velta því fyrir mér og vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún telji þetta nægilegt fjármagn til þess að vega upp á móti hækkunum á viðmiðunarfjárhæðunum vegna hámarks kostnaðarþátttöku í greiðslukerfi vegna lyfja. Hins vegar vil ég spyrja í ljósi þess að tekjuviðmiðin sem notuð eru til að ákvarða uppbætur á lífeyri eru krónutöluviðmið og hafa verið óbreytt frá árinu 2010, hvort þessi 72 millj. kr. hækkun geri eitthvað meira en að halda í við hækkun bóta í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og verðlagsþróun frá þessum tíma. Liggja einhverjir útreikningar fyrir til þess að hægt sé að átta sig almennilega á því hvaða áhrif (Forseti hringir.) samspil þessara tveggja kerfa og breytinga í þeim muni hafa á kjör lífeyrisþega?