144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að það sé gríðarlega mikilvægt að skoða hvernig samspil þessara tveggja kerfa er og hvaða áhrif það mun hafa á lífeyrisþega. Svo ég endurtaki það sem ég sagði áðan þá hef ég verulega þungar áhyggjur af því hvað hækkuð kostnaðarhlutdeild kemur til með að hafa á kjör og hreinlega getu fólks til að lifa af í samfélaginu því að lyfin eru auðvitað nauðsynleg.

Til þess að reyna að ná betur utan um þetta þá vona ég svo sannarlega að þegar fjárlagafrumvarpið gengur til nefndar muni nefndin kafa virkilega djúpt ofan í þetta. Þangað til, meðan ég er að reyna að ná utan um þetta og átta mig fyllilega á þessu, langar mig að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún geti upplýst um það hvert hið nýja tekjuviðmið verður, sem sagt hvaða greiðslur öryrkjar megi hafa til þess að geta vænst þess að fá greiddar uppbætur á lífeyri. Hverjar eru hámarkstekjurnar og þar með taldar greiðslur úr lífeyristryggingakerfinu, þ.e. hver verður hámarksfjárhæðin sem fólk má hafa á milli handanna í hverjum mánuði?