144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elínu Hirst fyrir hennar orð. Ég tek algjörlega undir það sem þingmaðurinn segir um mikilvægi þess að við hugum að öldrun þjóðarinnar og því sem spár segja um hversu hátt hlutfall fólks verður orðið 67 ára og eldra. Bæði ég og hæstv. heilbrigðisráðherra höfum verið að huga mjög að þessu. Hvað mig varðar hef ég verið með stefnumörkunina meðan heilbrigðisráðherra hefur fyrst og fremst náttúrlega verið með rekstur hjúkrunarheimilanna og heimahjúkrun. Við höfum sem sagt bæði legið yfir þessu.

Sú vinna sem ég hef verið í og hef verið mjög áhugasöm um snýr að sjálfsögðu að breytingum á almannatryggingakerfinu. Við horfum til þess að það að vera orðinn 67 ára í dag versus hvernig þetta var fyrir 50 árum er allt annað og börn sem fæðast núna mega vænta þess að lifa kannski 20 árum lengur en meðallífslíkur mínar eru. Ég hef lagt áherslu á það að fólk hafi möguleika og við horfum til þess sem hefur verið kallað sveigjanleg starfslok.

Ég er sammála því að það er mikilvægt að fara vel yfir lífeyristökualdurinn. Það var eitt af því sem var uppleggið fyrir vinnuna varðandi almannatrygginganefndina. Ég veit að sú nefnd hefur unnið hörðum höndum í fleiri mánuði og ég vonast eftir að sjá fljótlega tillögur frá þeim, sem verður örugglega mjög áhugavert.

Síðan að lokum vil ég nefna sérstaklega það sem snýr að hugtakinu „velferðartækni“. Það er nýtt hugtak fyrir okkur Íslendingum, þar sem menn horfa til þess hvernig tækni getur raunverulega hjálpað fólki sem er með einhvers konar skerðingu að búa sem mest og lengst heima hjá sér og sem sjálfstæðast. Ég held að möguleikarnir þar séu óendanlegir.