144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en verð að segja að það er ekki trúverðugt hvað varðar örorkubyrðina á lífeyrissjóðina. Það gilda lög um lífeyrissjóðina og ef hæstv. ráðherra vill gera þá breytingu að sjóðirnir tryggi hver annan fyrir eigin reikning fyrir örorkubyrði hlýtur ráðherrann að beita sér fyrir því að sú lagabreyting verði af hálfu ríkisstjórnarinnar færð fram í þinginu áður en teknar eru til baka greiðslur til lífeyrissjóðanna vegna þessarar mismunandi örorkubyrði en láti það ekki eftir sjóðunum sjálfum, þeim sem betur eru settir, að ákveða hvort þeir ætli að hjálpa hinum sem verr eru settir. Ef það fylgir ekki lagasetning um þetta efni þýðir það bara að þeir lífeyrissjóðir eins og Gildi sem hafa skuldbindingar gagnvart iðnverkafólki, sjómönnum og öðrum starfsstéttum sem búa við mjög þunga örorkubyrði, munu sitja uppi með hallann og það mun þurfa að skerða réttindi þeirra meðan lífeyrissjóðir okkar hér í þinginu og lífeyrissjóðir ýmissa annarra hópa munu enga réttindaskerðingu taka. Það er augljóslega ósanngjarnt, hæstv. ráðherra, og ég hvet til þess að þessi áform verði endurskoðuð.

Hvað starfsendurhæfinguna varðar vil ég endurorða spurninguna. Ég hygg að ekki sé lengur um sjóðsöfnunarvanda að ræða hjá VIRK. Það er yfirlýst af hálfu aðilanna að það þurfi að draga úr starfsendurhæfingu á næsta ári frá því sem er í ár. Ætlar ráðherra að tryggja að þannig verði búið um starfsendurhæfingu í landinu að ekki þurfi að minnka hana á tímum þegar fjármunir í ríkissjóði vaxa, hagvöxtur er í landinu og almennt meira til skiptanna, að á slíkum tímum verði ekki dregið úr starfsendurhæfingu heldur að minnsta kosti haldið óbreyttu?