144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar fór í gegnum ætti hann að kannast við það að lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eru ekki á málasviði félags- og húsnæðismálaráðherra. Hins vegar held ég að finna megi á þingmálaskránni hjá fjármálaráðherra fjögur mál sem tengjast breytingum á þeim lögum. Ég held að það væri ekki sérstaklega erfitt, ef það væri vilji til, að gera nákvæmlega þá lagabreytingu sem hv. þingmaður talar hér um í einhverju af þessum fjórum málum sem er ætlunin að leggja fram.

Ég vil gjarnan aðeins svara þessu um atvinnumálin. Þegar gerð er hagræðingarkrafa á félags- og húsnæðismálahluta velferðarráðuneytisins verðum við einfaldlega að horfast í augu við það að 93% af þeim fjárveitingum sem við erum með fara í svokallaðar tilfærslur. Það er einfaldlega ekki möguleiki á því að mæta hagræðingarkröfu upp á tæpa 2 milljarða með því að loka einni skrifstofu í einni stofnun hjá okkur heldur værum við þá einfaldlega að tala um að leggja niður Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun í heild sinni til að mæta þessari hagræðingarkröfu í ljósi þess að lífeyrisþegar tóku á sig verulega skerðingu á síðasta kjörtímabili til að mæta meðal annars miklu auknu atvinnuleysi og vegna þess að atvinnuástandið er miklu betra. Við erum með hvað minnst atvinnuleysi af öllum OECD-ríkjunum. Ég held að það sé hægt að segja að við séum í hópi þeirra landa sem standa hvað best í Evrópu; Þýskalandi, Noregi og Austurríki.

Varðandi atvinnuleysistölurnar lít ég svo á að það hljóti að vera forgangsverkefni hjá okkur. Þess vegna erum við að tala um að vera með óskerta fjármuni í vinnumarkaðsaðgerðir, bæta jafnvel í og hjálpa fólki að fá vinnu. Í ákveðnum landshlutum mundi ég jafnvel segja að það væri nánast ekkert atvinnuleysi, það vantar fólk þannig að það hlýtur að vera verkefni okkar (Forseti hringir.) næstu mánuði eins og hefur náttúrlega verið. Það hefur sýnt sig í verkefnum Vinnumálastofnunar að vinnumarkaðsúrræðin skila (Forseti hringir.) árangri.