144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Á þingmálaskránni eru 16 frumvörp og þrjár þingsályktunartillögur frá félags- og húsnæðismálaráðherra. Það er rétt að frumvarp um breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks hvað varðar NPA er ekki sérstaklega tiltekið þar. Við erum með ákvæði sem snýr að vinnutímafyrirkomulagi hjá því starfsfólki sem hefur starfað í NPA auk þess sem við erum núna í viðræðum við sveitarfélögin um uppgjör sem tengist yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Það hefur raunar komið alveg skýrt fram hjá sveitarfélögunum að þau telja að í þeim fjármunum sem fóru í það á sínum tíma hafi ekki verið tekið tillit til NPA og um það þurfi að ná samkomulagi.

Ég vil því hvetja hv. þingmann að hafa samband við þá sveitarstjórnarmenn sem eru nýkjörnir fyrir hönd Bjartrar framtíðar og eru í lykilstöðu í þremur af stærstu sveitarfélögum landsins og beita sér fyrir því að tryggja það að sveitarfélögin vilji taka við þessu verkefni.