144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það. Ég held að það sé mjög brýnt að við náum niðurstöðu og samkomulagi við sveitarfélögin um það hvernig við stöndum að þjónustu við fatlað fólk. Að sjálfsögðu er undirliggjandi þar að tryggja sjálfstæði fólks, hvort sem það er fatlað eða ófatlað.

Það sem ég vildi líka benda á til viðbótar er að við erum núna að ljúka vinnu sem snýr að velferðartækninni. Þar hefur til dæmis verið bent á rannsóknir sem sýna að hlutir eins og það að geta sjálfur farið á salerni er eitt af því sem skiptir fólk verulega miklu máli og er hluti af því að tryggja sjálfstæði einstaklinganna og virða hvern og einn. Jafnvel þar getur tæknin hjálpað til. Við erum að setja samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 50 milljónir aukalega í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þannig er áætlað að verja 350 millj. kr. í áætlunina á næstu fjórum árum. Þar verður áhersla lögð á réttindavakt í málefnum fatlaðs fólks, nýjungar á sviði velferðartækni og forvarnir vegna ofbeldis gegn fötluðu fólki og ekki hvað síst börnum.

Í frumvarpinu er einnig 25 millj. kr. tímabundin heimild vegna sameiningar þjónustustofnana fyrir fatlað fólk. Ég vonast til þess að geta lagt fram það frumvarp á næstu vikum hér í þinginu. Ég veit að hagsmunasamtök hafa verið mjög jákvæð gagnvart þeirri breytingu og ekki hvað síst þeim möguleika að geta sótt þjónustu á einn stað sem skiptir gífurlega miklu máli fyrir fólk sem á t.d. við hreyfihömlun að stríða.