144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en vil aðeins minna á það að nú þegar hagur ríkissjóðs og þjóðarinnar er að skána er skorið niður til vegamála. Við ráðherra erum sammála um hver talan er, 2–2,5 milljarðar kr.

Ég vil aðeins minna á að á þessum mesta erfiðleikatíma þjóðarinnar, á seinni tímum, eftir bankahrunið, voru fjárveitingar í tíð síðustu ríkisstjórnar árin 2008, 2009 og 2010 þannig að það var slegið Íslandsmet í framkvæmdum, akkúrat til innviðastyrkingar eins og hæstv. ráðherra talar um. Þess vegna skil ég ekki og spyr ráðherra: Hvers vegna er það? Er það vegna þess að ríkisstjórn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra segja bara: Nei takk, hæstv. ráðherrann fær ekki meir?

Auk þess vil ég gera niðurskurðinn að umtalsefni hér. Það á eftir að skoða betur hvernig þessar tölur koma allar heim og saman. Hér er boðaður niðurskurður á viðhaldsverkefnum og framkvæmdaverkefnum i Landeyjahöfn upp á einar 250 millj. kr. Hér er líka skorið niður um 250 millj. kr. vegna hönnunar og undirbúnings að nýrri Vestmannaeyjaferju. Ég er ekki alveg viss, en því miður heyri ég ekkert í þingmönnum Suðurkjördæmis hvað þetta varðar, sérstaklega stjórnarliðum.

Virðulegi forseti. Ég bið hæstv. innanríkisráðherra að segja okkur hvað þarna er á ferðinni.

Eins og ég hef sagt hef ég auk þess tekið eftir því að í núverandi samgönguáætlun hafa menn krukkað í verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun og nefni ég þá sérstaklega Dettifossveg. Mér er kunnugt um að hæstv. ráðherra hafi beitt sér fyrir því að þeir fjármunir hafi verið færðir inn í viðhald vega með því loforði að nýir og meiri peningar kæmu til viðhalds vega sem yrði þá skilað í Dettifossveg. Það þarf ekkert að minnast á 3 kílómetra útboðið þar, það er hvorki fugl né fiskur miðað við þá áætlun sem var frammi.

Virðulegi forseti. Þetta er innlegg mitt í þessa umræðu um samgöngumál við hæstv. innanríkisráðherra.