144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef lesið nokkrar af þeim ræðum sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra hélt hér út af samgöngumálum á sínum tíma þar sem mætti snúa umræðunni alveg á hvolf, enda var þá ekki um að ræða sérstakt átak í samgöngumálum. Þá voru líka ákveðnir erfiðleikar sem ollu því að menn gengu ekki mjög langt í þeim efnum.

Ástæðan fyrir því að við erum í dag á þeim stað að það er mikil uppsöfnuð viðhalds-, öryggis- og framkvæmdaþörf er vegna þess að við höfum ekki gert mikið af slíku á undanförnum árum. Eðlilega var hart í ári og menn þurftu að koma víða við í því sambandi. Til þess að halda utan um tölurnar er það þannig að þegar tekin eru burtu verkefni sem er hætt eða verkefni sem voru tímabundin er það ekki niðurskurður. Ég get komið gögnunum til hv. þingmanns.

Tillaga að frumvarpi til fjárlaga 2015 felur í sér 21.270 millj. kr. en tillaga til þingsályktunar 23.308 millj. kr. Sú tala sem ég nefndi áðan er kórrétt tala og svo getum við tekist á um hvort það er nógu há tala eða ekki. Ég get tekið undir það, og hef gert það áður, að ég tel að við þurfum innspýtingu í vegamálin, í samgöngumálin og það skiptir máli að þingið reyni að halda þannig á málum. Þess vegna þakka ég fyrir að það er ákveðin aukning, um 850 milljónir, og það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að Vegagerðin telur mikilvægt að nýta það til viðhalds fremur en til nýframkvæmda.

Varðandi Vestmannaeyjaferjuna ítreka ég það sem ég hef sagt áður, og hér las hv. þingmaður upp úr skjalinu, það er engin efnisbreyting á afstöðu okkar til þess verkefnis. Það hafa hins vegar verið umræður í gangi, ég hef greint frá þeim hér í þingsölum, það hafa verið umræður í gangi af hálfu Vegagerðarinnar um hvort það gæti verið að við ættum að skoða aðra kosti í málinu með það að markmiði að ná þessari samgöngubót fyrir Eyjarnar og menn hafa nefnt í því sambandi það sem ég nefndi áðan, (Forseti hringir.) ákveðna aðkomu að einkaframkvæmd. Það er engin ákvörðun tekin um það. Eina ákvörðunin sem liggur fyrir er að nú er í gangi þetta verkefni sem (Forseti hringir.) tengist hönnun ferjunnar. Það stendur til að bæta úr og tryggja öflugar samgöngur á milli lands og Eyja og tryggja þá ferju sem lofað hefur verið. (Forseti hringir.) Það er alveg sama hvernig menn reyna að snúa út úr þeim texta sem þarna er, í honum felst ekkert annað en sú afstaða að til verksins verði gengið (Forseti hringir.) þó að menn leyfi sér á leiðinni að skoða fleiri en einn kost.