144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst ég bara vera kominn aftur á þann tíma rétt fyrir 1990 þegar sama þvæla var í gangi um árabil um þáverandi undirbúning að endurnýjun Herjólfs. Menn voru búnir að henda því máli á undan sér í mörg ár með alls konar hugmyndum um að leigja skip og senda menn út um lönd og álfur að reyna að finna einhverja dalla og niðurstaðan varð alltaf sú sama: Eina varanlega og fullnægjandi lausnin er að byggja nýtt skip sem fullnægir kröfum tímans. Í þessu tilviki eru sérstaklega ríkar ástæður til þess vegna þess að væntanlega þarf að einhverju leyti að hanna skipið miðað við þær sérstöku aðstæður sem þarna eru í Landeyjahöfn og þessa siglingaleið.

Varðandi þetta að þegar tímabundin verkefni hverfa sé það ekki niðurskurður þó að fjárveitingar til málaflokksins samtals lækki um sennilega eitthvað á fjórða milljarð, þá hef ég nú heyrt svona formúleringar áður en þær hafa yfirleitt komið úr hinni áttinni. Þetta er málflutningur fjármálaráðuneytisins og vörnin fyrir því að skera niður. Allir þeir ráðherrar sem ég glímdi við sem fjármálaráðherra reyndu alltaf að halda þessum fjármunum inni í málaflokknum og mættu með fimm ný verkefni þegar þrjú voru búin.

Það sem hér er að gerast og hæstv. innanríkisráðherra verður að horfast í augu við — örugglega er það henni ekki ánægjuefni — er að málaflokkurinn er að missa frá sér verulega fjármuni undir því yfirskini að einhver tímabundin verkefni séu að renna út. Það er þá eitthvað nýtt á ferðinni ef menn reyna ekki svolítið að bíta frá sér og standa vörð um þau svið sem þeim eru falin. Það er það rík samstaða um það að við eigum að fara að láta samgöngumálin njóta í meira mæli góðs af því að nú er heldur að léttast róðurinn hjá okkur. Hæstv. ráðherra hefði haft fullan stuðning til þess að láta ekki fara svona með sig og sinn málaflokk.