144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og ég vil þakka þetta form. Það er mjög gott form að geta rætt við ráðherra. Ég man þá tíð að menn biðu hérna lon og don eftir ráðherra sem aldrei kom.

Nú er það þannig að við Íslendingar höfum valið að fjármagna vegakerfið með gjöldum á bensín og olíu, dísil. Svo er það að gerast, sem betur fer og mjög ánægjulegt, að hér koma sífellt sparneytnari bílar, mjög sparneytnir. Við erum komin með tvinnbíla sem nota bæði raforku eða hreyfiorku og fallorku til að knýja bílinn áfram, svo erum við að sjá hreina rafmagnsbíla. Þeir borga ekkert fyrir vegakerfið af því að þeir nota ekkert bensín. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort menn hafi hugað að þessari þróun sem er mjög jákvæð af því að hún dregur úr notkun á gjaldeyri sem of lítið er til af. Hafa menn hug á því að breyta forminu á því hvernig menn borga fyrir vegakerfið? Eða ætla menn hreinlega að láta gjaldstofninn, þann sem stendur undir vegagerðinni, deyja hægt og rólega út? Þá eru engir peningar til í vegagerð.

Ég held að menn þurfi að skoða þetta dálítið til framtíðar og það fyrr en seinna.