144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:34]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögu hæstv. ráðherra og tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals um að það er frábært að fá að tala svona við sérhvern ráðherra um hvern málaflokk fyrir sig.

Nú er það svo að fjárlögin eru vottur um forgangsröðun og sýn ríkisstjórnar á málin, það er náttúrlega alltaf þannig. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um forgangsröðun í sambandi við almenningssamgöngur. Nú erum við að lækka vörugjöld á bifreiðar. Við í Bjartri framtíð fögnum svo sem lækkun á vörugjöldum en það skýtur skökku við að á meðan verið er að lækka vörugjöld á bifreiðar og lækka viðhaldskostnað þeirra sjáum við niðurskurð í almenningssamgöngum.

Mig langar að heyra frá ráðherra um framtíðarsýn hennar í samgöngumálum og almenningssamgöngum og hvort þetta samræmist framtíðarsýn hennar í þeim.

Í öðru lagi verð ég aðeins að ræða um vegamálin eins og fleiri hafa gert. Vegagerðin segir að það sé fyrirsjáanlegt, ef ekkert verði að gert, að 58% vegakerfi landsins með bundnu slitlagi verði undir lágmarkskröfum um öryggi árið 2017. Mig langar að heyra skoðun hæstv. ráðherra á þessari ógn og hvort þetta hafi verið til umræðu þegar fjárframlögin voru ákveðin. Vissulega er einhver fjáraukning þarna, en að raunvirði er hún metin á 315 milljónir og hún mun væntanlega fara öll í nýframkvæmdir. Það eru í raun þessar tvær spurningar, framtíðarsýn hæstv. ráðherra í sambandi við almenningssamgöngur og þessi ógn sem er fyrirsjáanleg í framtíðinni, hvort við séum ekki að velta reikningnum þangað.