144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:57]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Já, ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þó ég verði að segja að þau sefi ekki mjög áhyggjur mínar af stöðu mála í Gufudalssveit eða í samgöngumálum Vestfirðinga almennt. Nú vill þannig til að Vestfirðir hafa verið skilgreindir sem sérstaklega brothætt svæði. Það er viðurkennt af öllum til þess bærum aðilum sem hafa fjallað um byggða- og samgöngumál og atvinnumál að þessi landshluti á allt sitt undir samgöngum auk auðvitað raforkuöryggis og fjarskiptamála. Ef frekari töf verður á því að hægt sé að standa við fyrirheit um að byggja upp og treysta þá innviði sem þessi landshluti þarf svo lífsnauðsynlega á að halda þá eru menn að taka meðvitaða ákvörðun um að viðhalda því ófremdarástandi sem stefnir í gagnvart þeim landshluta.

Ég hlýt líka að velta því fyrir mér og mig langar að spyrja um það í þessu samhengi: Nú sé ég á samgönguáætlun að ekki er gert ráð fyrir að Dýrafjarðargöng verði boðin út fyrr en árið 2017. Samkvæmt tillögum síðustu ríkisstjórnar átti að flýta því verki. Göngin hafa verið tilbúin til útboðs í þrjú eða fjögur ár. Hvers vegna lætur innanríkisráðherra ekki bjóða þessa framkvæmd út? Hvers vegna er ekki hægt að standa við það, því það er þó að minnsta kosti hinu opinbera að kostnaðarlausu að standa við það að hleypa göngunum í útboð. Það hefði þó kannski verið sárabót í þessum vanda sem snertir vegagerðina á sunnanverðum Vestfjörðum.

Varðandi kynferðisbrot gegn börnum. Ég þakka ráðherra fyrir svörin og hans hug í því máli (Forseti hringir.) en vil þó líka jafnframt brýna hann á því og um leið fjárlaganefnd þingsins að tryggja að þeir fjármunir sem áttu sérstaklega að fara (Forseti hringir.) til þessa verkefnis — að við það verði staðið og þetta verði leiðrétt.