144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi þá áætlun sem áður hefur verið nefnd hér og varðar kynferðisofbeldi gegn börnum þá var sú vinna sem starfshópur þessara ólíku ráðuneyta hafði unnið eftir, eftir því sem ég best veit en skal afla frekari upplýsinga fyrir hv. þingmann, um það að verkefninu hefði verið ætlað að skila framlagi á síðasta ári en það liggur ekki alveg fyrir hvernig eigi að taka á því með sama hætti á þessu ári. Ég skal fara betur yfir það fyrir hv. þingmann og láta taka það saman. En ég árétta það sem ég hef áður sagt að sumt af þessum verkefnum kemur auðvitað inn í þessa áætlun er lýtur að auknu fjármagni til löggæslu og tengist þannig.

Varðandi það sem rætt var um um fangelsismál og almennt um þau mál þá hef ég ákveðnar væntingar til þess að við séum að fara að taka með heildstæðari hætti á þeim málum. Mikil vinna hefur verið í gangi og var sett í gang á síðasta kjörtímabili og lýtur að svokallaðri réttaröryggisáætlun. Sigurður Tómas Magnússon leiðir þessa vinnu fyrir ráðuneytið og hefur gert það um nokkurt skeið. Hún lýtur að því að skoða þessa heildarhugsun í réttaröryggi landsmanna og fangelsismálin koma inn í það. Það er því ákveðin skoðun fagaðila í gangi á vettvangi ráðuneytisins, mikil og öflug vinna sem ég vænti mikils af og vona að ég geti flutt þingheimi frekari fréttir um það á þessu þingi.