144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fá að spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í fjarskiptamálin, sem hún kom reyndar inn á áðan, vegna þess að ég sé að ekki er hækkun til Fjarskiptasjóðs. Eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á þarf að laga fjarskiptin áður en við getum farið í ýmis verkefni úti á landi sem tengjast netinu. Við þekkjum það sem búum úti á landi og förum til dæmis í kjördæmavikurnar að það er mjög stórt vandamál hve nettengingar eru víða slæmar. Þetta hefur áhrif á ferðaþjónustuna og þetta er eitthvað sem hvert einasta sveitarfélag kvartar yfir.

Ég velti fyrir mér: Er markmið að dútlast áfram í því að reyna að nettengja einn og einn bæ, eða hvert er planið í þessum efnum? Þetta er eitt stærsta byggðamálið, ég leyfi mér að fullyrða það. Ef við getum ekki tryggt það að arkitekt geti búið á Borgarfirði eystri af því hann getur ekki hlaðið niður þungum skjölum, þá er tómt mál að tala um byggðastefnu. Þannig að þetta er ein spurningin.

Svo langar mig aðeins að spyrja út í annað sem við innanríkisráðherra höfum áður rætt og tengist kannski tekjuhliðinni — við fáum svo sem ekki tækifæri til að ræða við ráðherra um það þannig að ég ætla að fá að gera það hér — en það varðar innheimtu skattskulda og þessar tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar sem hafa komið út. Niðurstaðan er eiginlega sú að það þarf að auka eftirlit með innheimtu dómsekta, aðallega vegna skattalagabrota, og það innheimtist sáralítið af þessum sektum. Ég skildi það þannig að til stæði að endurskoða lög um þetta, átti að leggja það fram á síðasta þingi, það var ekki gert. Ég spyr svona örstutt hvort við megum búast við því að það verði gert á þessu þingi eða hvort þetta hafi einhvern veginn strandað. Vegna þess að ég gef mér að þetta sé efni í þriðju skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þetta er mjög stórt mál.