144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi síðari spurninguna um innheimtu dómsekta: Það stendur ekki til, það er ekki á þingmálaskrá þessa þings, að leggja það fram. Ég þekki málið og veit af verkefninu og viðfangsefninu og þeim vanda sem hv. þingmaður lýsir. Það hefur verið ákveðin skoðun í ráðuneytinu með því að færa þetta verkefni til sýslumanns á Blönduósi til þess einhvern veginn að ná betur utan um verkefnið. Það er sú staða sem er á málinu nákvæmlega núna. Hv. þingmaður getur að sjálfsögðu fengið frekari upplýsingar um það.

Varðandi fjarskiptamálin þá held ég að við séum öll sammála um það — það er kannski ekki mitt hlutverk að útskýra eða afsaka hvers vegna stjórnvöld hér fyrr á tímum hafa ekki tekið kannski á því með þeim hætti sem æskilegt og eðlilegt hefði verið. Það breytir engu um það að þetta er líka eitt af þeim viðfangsefnum sem samfélagið hefur kannski þurft að takast á við með meiri hraða en við vorum reiðubúin í. Við búum í stóru og dreifbýlu landi og kröfurnar í þessum málum hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum. Krafan um háhraðatengingar var ekki til staðar fyrir nokkrum árum. Hún er það sannarlega núna. Við því verðum við að bregðast. Ég held og er alveg sammála hv. þingmanni í því að þetta er eitt af stærstu byggðamálunum, eins og ég vil orða það. Ég held að það séu líka fleiri mál sem skipta máli en það er einfaldlega orðin nútímakrafa, eins og nefnt var hér, að fólk geti starfað og búið víða um landið og sinnt störfum sínum í gegnum netið án þess að þurfa að bíða eftir tengingunni í langan tíma. Það er eðlileg nútímakrafa.

Ég sagði það áðan og ég ítreka það að ég held að til þess að taka á því þurfum við sérstakt átak. Ég held líka að við þurfum að taka höndum saman við fjarskiptafyrirtækin og vinna með þeim í verkefninu. Það er sú leið sem flestar þjóðir sem hafa náð árangri hafa farið.