144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefði mátt lesa aðeins lengra í fjárlagafrumvarpinu þegar hann var að vísa til þess að þetta hefði farið yfir á byggðaáætlun, því að ef við erum að ræða það sem er undir byggðaáætlun segir þar að gert sé ráð fyrir því að upphæðin verði meðal annars nýtt til að fjármagna verkefni um stöðu og framtíð íslenskra landbúnaðarsamfélaga. Það er kannski ekki alveg það sama og að verja brothættar byggðir sem eiga mjög undir högg að sækja vegna íbúafækkunar, hækkandi meðalaldurs og annars sem hrjáir veikustu byggðarlögin í landinu. Ég vil því skora á menn að endurskoða þetta aðeins.

Það er auðvitað ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar í ljósi þessa fjárlagafrumvarps, samanber svörin sem við fengum hér áðan frá hæstv. innanríkisráðherra þegar við ræddum stöðu veikustu svæðanna, m.a. Vestfjarða, sem augljóslega eru ekki í forgangi og í mikilli óvissu, því að sóknaráætlanirnar eru greinilega í miklu uppnámi eins og sakir standa. Það vantar alla stefnufestu í það hvernig eigi að verja fjármunum til þess að snúa vörn í sókn varðandi fólksfækkun og atvinnuerfiðleika úti á landi.

Að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að auka fjármagn til sóknaráætlananna og það þarf auðvitað að aðhafast fleira. Það þarf að stórauka fjármuni til samgöngumála og ég vil minna á tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir í byggðamálum sem Samfylkingin hefur lagt inn í þessa umræðu og hér fyrir þetta þing þar sem við erum með mjög góða og ítarlega áætlun um hvernig best verði snúið vörn í sókn. Ég skora á hæstv. ráðherra að gefa gaum að þeim tillögum sem þar koma fram og vinna með okkur.