144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi jöfnun flutningskostnaðar er það rangt hjá hv. þingmanni að það hafi fallið út í fyrra, fyrst og fremst varð breyting á fyrirkomulagi. Hér á þingi varð uppi ansi mikill úlfaþytur um þetta og þurfti að útskýra það nokkrum sinnum og benda á hvernig það væri útskýrt í fjárlagafrumvarpinu að verið væri að breyta fyrirkomulaginu.

Það er ekki mat okkar að það komi til neinnar skerðingar þó að upphæðin sé 175 milljónir en ekki 200 einfaldlega vegna þess að þeir fjármunir sem voru áætlaðir í þetta gengu ekki út til verkefnisins. Ég held ég geti fullyrt að þær 175 milljónir sem hér eru séu miðaðar við það að þær umsóknir sem bárust í fyrra séu innan þess ramma og það standi.

Það er hins vegar rétt að ég held að þetta hafi verið mjög gott skref að taka hjá fyrrverandi ríkisstjórn og ég held að nauðsynlegt sé líka að velta fyrir sér hvort þessi jöfnun gangi nógu langt og sá radíus sem menn hafa sett sé skynsamlega settur upp og það gæti þurft að breyta honum. Við veltum því fyrir okkur í fyrra þar sem við höfðum úr fleiri peningum að spila en það varð ekki raunin þá. Það er verkefni sem ég held að þingið og ráðuneytið þurfi að velta aðeins fyrir sér hvort við getum gert betur.

Varðandi Framleiðnisjóð þekkir hv. þingmaður það að skera þarf niður og ég man ekki betur en að sjóðurinn einn sjóða, rannsóknasjóða, hafi verið skorinn grimmilega niður af fyrrverandi ríkisstjórn. Við erum hér að snúa til baka, en eins og hv. þingmaður þekkir þurfum við stundum að standa við aðhaldskröfur og hér er það gert. Það var mat ráðuneytisins að hér væri ekki um samningsbrot að ræða, ekki væri verið að skerða samninginn án þess að það væri heimilt og þess vegna er aukningin 17 milljónir að þessu sinni en ekki 25, eins og hafði verið ráðgert.