144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held svo sem að það skili okkur litlu að dvelja við fortíðina en samkvæmt mínum upplýsingum var það ekki með samkomulagi að menn ákváðu einhliða að hætta að greiða í Lífeyrissjóð bænda. Ég held að bændur hafi sætt sig við þann niðurskurð á Framleiðnisjóði alveg eins og hv. þingmaður benti á að menn vörðu búvörusamningana og ég held að það hafi verið mikilvægt.

Það sem hins vegar gerðist var að þessi sjóður er svona afmarkaður rannsóknasjóður við landbúnaðinn og rannsóknir á þeim tíma minnkuðu mjög mikið, því miður, og tækifærin, til að mynda Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, að fara í rannsóknarverkefni urðu verulega lítil ef nokkur á þeim tíma.

Ég tel að hér séum við að byggja upp. Auðvitað voru Bændasamtökin upplýst um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og ég tel að við séum komin af stað í uppbyggingarferli og við þurfum auðvitað að ganga lengra. Ég held að Framleiðnisjóður sé mjög mikilvægur rannsóknasjóður. Í samtölum mínum við hina og þessa, meðal annars náttúrustofurnar, rannsóknasetrin og háskólana hafa menn bent á að mikilvægt sé að hafa minni sjóði til að sækja í vegna þess að stóru sjóðirnir, samkeppnisjóðirnir hjá Rannís og Tækniþróunarsjóður hafa því miður ekki horft til landbúnaðar og sjávarútvegs sem skyldi. Það eru verkefni sem við þurfum að taka þar upp, bæði að Vísinda- og tækniráð og þessir stóru sjóðir horfi meira til þessara hefðbundnu atvinnugreina okkar. Þar er gríðarleg nýsköpun og nýsköpunargeta og hefur reyndar margt þar verið unnið. Við þurfum líka að hvetja aðilana inni í þeim geira til að sækja inn í þá stóru sjóði en þangað til sú staða er uppi skiptir Framleiðnisjóður gríðarlegu máli. Ég tel að við séum hér að taka jákvætt skref en við þurfum að taka fleiri í þá áttina.