144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég minntist einmitt á þessar girðingar sem þyrfti að taka upp til að benda á að þar gæti verið stór liður sem væri vanfjármagnaður. Matvælastofnun fær fjármagn til viðhalds og við segjum að stofnunin eigi að nota þá fjármuni í viðhald og einnig til þess að greiða fyrir þær girðingar sem eru teknar upp; sá liður verður án efa of lítill til þessara tveggja verkefna, sérstaklega ef umfang þess að taka upp ónýtar girðingar er mikið, nokkuð sem við höfum fengið ábendingar um. Það er ágreiningur á milli stofnunarinnar og ráðuneytisins um nákvæmlega hver eigi að greiða reikninginn fyrir að taka upp girðingar. Við munum væntanlega leita til Ríkisendurskoðunar til þess að hreinsa upp það mál og fá á hreint hvar sú lína liggur. Það breytir því ekki að þá gætum við í þinginu staðið frammi fyrir umfangsmiklu verkefni sem við höfum ekki fjármagnað með einhverjum hætti. Þess vegna vildi ég nefna þetta hér.

Ég tek undir með hv. þingmanni að einhverra hluta vegna hafa rannsóknir í landbúnaði gefið eftir á síðustu árum og þær hafa ekki verið nægilegar. Sá samningur sem ráðuneytið hefur gert við landbúnaðarháskólann hefur að mati okkar kannski ekki verið nægilega skýr, við sjáum ekki nákvæmlega hvað þar hefur verið á ferðinni, þurfum að skýra það betur. Það er stærra og þyngra undirliggjandi vandamál sem þar hefur verið til staðar um allnokkurt skeið og tengist hugsanlega stöðu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og öðru slíku. Ég tel því að það sé verkefni sem sé vert að þingið taki til umfjöllunar, atvinnuveganefnd, og hugsanlega fjárlaganefnd, nú þegar verið er að auka stórlega fjármuni í samkeppnissjóðina, ef menn vilja líka horfa til minni rannsóknasjóða fyrir einstakar atvinnugreinar.